Landsbankinn mun sjá um útgáfu skuldabréfa Totusar ehf, félags um eignarhald fasteignarinnar Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss, að fjárhæð 18,5 milljarða króna. Er þetta liður í endurfjármögnun framkvæmda við Hörpu. Landsbankinn mun sölutryggja bréfin.

Í tilkynningu kemur fram að leitað hafi verið til fjögurra banka og hafi tveir bankar skilað inn tilboðum. Landsbankinn hafi boðið sölutryggingu, sem hinn bankinn hafi ekki gert. Eftir samanburð á tilboðunum tveimur á grundvelli ávöxtunarkröfu, þóknunar, gengis og sölutryggingar sé það mat Totusar að tilboð Landsbankans sé hagstæðara.

Með skuldabréfaútgáfunni verða framkvæmdir við Hörpu fjármagnaðar að fullu og sambankalánið, sem tekið var í ársbyrjun 2010, greitt upp ásamt eigendalánum vegna byggingarinnar, að því er segir í tilkynningunni.