Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út skuldabréfaflokk til skamms tíma með gjalddaga í mars 2010. Bréfin eru til 14 mánaða og það var Landsbankinn sem sölutryggði bréfin.

Orkuveitan fékk fjármagnið í hendurnar 9. janúar síðastliðinn. Að sögn Önnu Skúladóttur, fjármálastjóra Orkuveitunnar, var þetta nauðsynlegt til þess að loka fjármögnun vegna ársins 2008. Um leið brúar þetta lán sem ekki barst frá Evrópska þróunarbankanum eins og samið hafði verið um. Að sögn Önnu er Orkuveitan að greiða 1,25 punkta ofan á millibankavexti.

Um er að ræða lán úr lánalínu sem Evrópski þróunarbankinn hafði verið búinn að veita Orkuveitunni en stöðvaði afgreiðslu á í október síðastliðnum en þá átti Orkuveitan eftir að fá um sex milljarða króna úr lánalínunni. Lánin voru veitt vegna áfanga Hellisheiðarvirkjunarinnar sem var gangsett í haust. Einnig vegna hitaveituáfanga sem verður gangsett árið 2010 og er einnig komin mjög langt. Að sögn Guðlaugs G. Sverrissonar, stjórnarformanns Orkuveitunnar, er þess vænst að Evrópski þróunarbankinn greiði út lánið enda hafi þeir verið vel upplýstir um ástandið hér.