Greiningardeild Landsbankans spáir 0,1% hækkun vísutölu neysluverðs á mánudaginn, þegar Hagstofa Íslands mun birta tölur um þróun vísitölunnar.

Landsbankinn telur hækkun á verðtryggðu kröfunni og lækkun á óverðtryggðu kröfunni á föstudaginn gefa vísbendingar um að einhverjir markaðsaðilar geri jafnvel ráð fyrir lækkun vísitölunnar.

En þrátt fyrir túlkun markaðsaðila reiknar greiningardeild Landsbankans með 0,1% hækkun. Aðrir greiningaraðilar spá vísitölunni óbreyttri.

Greiningardeild Kaupþings banka spáir óbreyttri vísitölu, sem þýðir að 12 mánaða verðbólga lækkar niður í 3,8%.

"Seðlabankinn mun væntanlega fylgjast grannt með tölunum en þetta er fyrri birting neysluverðsvísitölunnar af tveimur fyrir næsta vaxtaákvörðunarfund bankans sem fram fer þann 26. janúar 2006," segir greiningardeild Kaupþings banka.

"Einnig birtust í vikunni tölur um fasteignaverð en hækkanir á fasteignamarkaði hafa verið aðalorsök verðbólgunnar undanfarið ár. Undanfarna þrjá mánuði hefur fasteignaverð einungis hækkað um 1,1% en fasteignaliðurinn vegur yfir 20% í vísitölunni og því skiptir framvinda fasteignaverðs miklu máli," segir greiningardeildin.