Í nýrri verðbólguspá Landsbankans er gert ráð fyrir 0,5% hækkun verðlags í júlí. Gangi spáin eftir eykst 12 mánaða verðbólga í 13,1%, en hún var 12,7% í júní. Greiningardeild Landsbankans telur að verðbólgan nái hámarki í haust í rúmum 14%.

Í verðbólguspá greiningardeildar Landsbankans er gert ráð fyrir að innflutningsverðlag hækki um 1-1,5% í júlímánuði. Einnig mun hækkun olíuverðs hafa áhrif.

Reiknað er með að útsölur hafi áhrif á vísitölu neysluverðs (VNV) í mánuðinum. Gert er ráð fyrir 12% verðlækkun á fatnaði og skóm, sem jafngildir 0,5% áhrifum til lækkunar VNV.

Fasteignaverð mun einnig vega upp á móti verðhækkunum, en gert er ráð fyrir lítils háttar áframhaldandi lækkun fasteignaverðs.

Að mati greiningardeildar Landsbankans hafa forsendur til þess að hratt dragi úr verðbólgu á allra næstu mánuðum ekki gengið eftir. Þó er gert ráð fyrir því að verðbólga nái hámarki í haust í rúmum 14% og gæti þá hjaðnað hratt seinni hluta árs.