Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að neysluverðsvísitalan muni hækka um 0,7% milli maí og júní, en áður hafði bankinn reiknað með 0,6% hækkun.

Í Vegvísum greiningardeildarinnar segir að að þessu gefnu muni tólf mánaða verðbólga haldast óbreytt frá fyrri mánuði í 7,8% og vísitalan standa í tæpu 261 stigi.

"Við endurskoðun spárinnar var helst litið til þess mikla verðbólguþrýstings sem ríkir í landinu og almennra verðhækkana á vörum og þjónustu," segir jafnframt í Vegvísi. "Vegna þessa voru gerðar nokkrar hækkanir á fyrri spá. Engar breytingar voru þó gerðar á húsnæðisliðnum né bensínliðnum frá fyrri spá.

Í nýju riti okkar um efnahagsmál og skuldabréfamarkað kemur fram sýn okkar á þróun verðbólgunnar næstu mánuði um að hún verði um 8% frá upphafi til loka þessa árs. Mun tólf mánaða verðbólga því sveiflast í kringum 8% sem eftir lifir árs en í kjölfarið lækka nokkuð snarpt, niður í 2,7%, á árinu 2007."

Hagstofan birtir nýjar neysluverðsvísitölu næstkomandi mánudag.