Í nýútgefinni Hagsjá Landsbankans er því spáð að Peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti um 1% á næsta stýrivaxtafundi nú á miðvikudag. Veiking krónunnar muni valda verðbólgu nokkuð yfir markmiði seinnhluta árs en hún hjaðni á næsta ári.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er sagður veita honum mikið svigrúm til vaxtalækkunar án þess að verðbólguvæntingar fari á flug, þar sem hann megi nota til að styðja við gengi krónunnar.

Í Hagsjánni er Seðlabankinn sagður lítið geta gert til að koma í veg fyrir þá verðbólgu sem í stefni næstu misseri vegna veikingar krónunnar, þar sem vaxtabreytingar muni ekki bíta á gengisáhrifin. Engin ástæða sé auk þess til að viðhalda vaxtamun við útlönd, enda dugi gjaldeyrisforði Seðlabankans vel til að viðhalda gengisstöðugleika þótt fallandi vaxtamunur leiði til fjármagnsflótta.

Allt stefni í að efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins verði mjög mikil hér á landi og metsamdráttur landsframleiðslu í ár. Því skipti mestu að milda það högg, og í því sambandi verði Seðlabankinn að leita allra leiða til að styðja við Hagkerfið.

Í spá bankans eru áhrif gengisveikingar krónunnar eftir að heimsfaraldurinn hófst ekki sögð hafa komið fram að fullu í verðlagi ennþá, og því sé viðbúið að 12 mánaða verðbólga nái 3,5% á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Framleiðsluslaki vegna faraldursins og lítilleg styrking krónunnar á næsta ári muni svo lækka hana að nýju og ári síðar verði hún komin í verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%.