Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,8% milli mánaða í september. Gangi spá hagfræðideildarinnar eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka lítilsháttar og mælast 10,8% í september samanborið við 10,9% í ágúst.

Í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar segir að búast megi við því að verðlag hækki þónokkuð vegna áframhaldandi verðhækkunar á fatnaði og skóm í kjölfar útsöluloka auk þess sem ný vörugjöld á ýmsa matvöru tóku gildi þann 1.september.

Aftur á móti bendi flest til þess að fasteignaverð sé ennþá á niðurleið en í spá Hagfræðideildar er gert ráð fyrir um 0,1% áhrifum til lækkunar VNV af þeim sökum. Þá hefur eldsneyti lækkað lítillega frá síðustu mælingu en Hagfræðideild segir að öllu óbreyttu megi reikna með að sú lækkun hafi um 0,05% áhrif til lækkunar VNV.   „Hækkun vörugjalda á ýmsa matvöru tók gildi þann 1. september, en vörugjöldin eru lögð á ýmsar tegundir matvöru sem mismunandi há krónutala á mismunandi tollnúmer,“ segir í Hagsjá.

„Við eigum von á að hækkun vörugjaldanna verði að mestu leyti velt beint út í verðlagið og að langstærstur hluti hækkunarinnar komi því fram strax í septembermælingunni.“ Sjá nánar í Hagsjá.