Greiningardeild Landsbanka Íslands spáir því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 25 eða 50 punkta í desember. "Útgáfur á skuldabréfum í krónum erlendis hafa leitt til þess að áhrif stýrivaxta á vaxtaferilinn hafa dvínað, en áhrifa á gengið gætir aftur á móti af meiri krafti en áður. Seðlabankinn hefur haldið því á lofti að hann horfi helst til virkni stýrivaxta á vaxtaferilinn en að áhrif á gengið styðji síðan við stefnuna, að minnsta kosti til skamms tíma. Nú stendur Seðlabankinn frammi fyrir því að gengið vegur enn meira en fyrr í miðlunarferlinu á meðan að vaxtaáhrifin eru veikari.

Þeirri skoðun hefur verið haldið á lofti nýverið að Seðlabankinn ætti að grípa til ráðstafana til þess að veikja gengið í þeim tilgangi að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Slíkt myndi vinna gegn aðhaldsaðgerðum bankans og vera til þess fallið að grafa undan trúverðugleika stefnunnar sem hefur átt undir högg að sækja undanfarið eins og bankinn benti réttilega á í nýjasta hefti Peningamála. Aukin kaup gjaldeyris á markaði munu auka peningamagn í umferð og þar með útlánagetu bankakerfisins og þannig almenna eftirspurn, nema að uppkaupin séu stýfð (e. sterilized).

Við teljum að í ljósi þess að gengisáhrifin eru sterkari nú en áður, þá muni Seðlabankinn grípa tækifærið og tilkynna um frekari stækkun forðans samfara 25 til 50 punkta stýrivaxtahækkun þegar Peningamál koma næst út 2. desember. Seðlabankinn kaupir nú 2,5 m.USD vikulega til að styrkja forðann og 10 m.USD aukalega þar til í desember vegna uppgreiðslu á erlendum lánum ríkissjóðs. Við reiknum með að þegar að tilkynnt verður um frekari stækkun forðans verði að sjálfsögðu jafnframt tilkynnt um stækkun á flokkum ríkisbréfa til þess að stýfa uppkaupin. Jafnframt eigum við von á að Seðlabankinn muni tilkynna um reglulega vaxtaákvörðunarfundi til þess að auka gagnsæi peningastefnunnar og koma í veg fyrir getgátur um hvenær muni vera tilkynnt um stýrivaxtahækkanir, eða hvers vegna það var ekki gert," segir í Vegvísi Greiningardeildar Landsbankans.