Greiningardeild Landsbankans spáir því að 12 mánaða verðbólga hækki frá október til nóvember úr 4,5% í 4,8%, að því er fram kemur í nýrri verðbólguspá. Í spánni er gert ráð fyrir að verðlag hækki um 0,3% í nóvember, en mæling Hagstofunnar verður birt á mánudag. Landsbankinn segir að útlit sé fyrir lækkandi verðbólgu með vorinu og að undir lok næsta árs mælist verðbólgan eilítið undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu.

Húsnæðisverð gefur eftir um mitt næsta ár

Í umfjöllun greiningardeildar Landsbankans kemur fram að hækkunina megi að mestu leyti rekja til áframhaldandi hækkunar húsnæðisverðs en ekki sé reiknað með miklum breytingum á öðrum liðum. Greiningardeildin segist ennfremur reikna með að fasteignaverð haldi áfram að hækka á allra næstu mánuðum en gefi eftir um mitt næsta ár.