Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% lækkun vísitölu neysluverðs í apríl. Gangi spáin eftir felur það í sér að tólf mánaða verðbólga lækki þriðja mánuðinn í röð og verði 11,1%, en hún var 15,2% í mars.

Í apríl í fyrra hækkaði vísitalan um 3,4% á milli mánaða, en nú hverfur sú mæling úr verðbólgutölunum og skýrir það lækkunina að stærstum hluta, að því er segir í fréttabréfi hagfræðideildarinnar.

Spá verðbólgu undir 10% í maí

Hagfræðideild Landsbankans spáir einnig fyrir um verðbólgu í maí og telur að hún verði þá komin undir 10%, í fyrsta sinn frá því í mars í fyrra. Forsenda fyrir spá um hraða lækkun verðbólgu er áframhaldandi fall eftirspurnar og lækkandi fasteignaverð, en gengi krónunnar muni hafi úrslitaáhrif. Í spánni er gert ráð fyrir að gengi evru verði nærri núverandi gildi út árið, eða um 170 krónur.

Spá 150 punkta vaxtalækkun í maí

Hagfræðideildin spáir því ennfremur að hröð lækkun verðbólgu verði til þess að stuðla að frekari vaxtalækkunum Seðlabankans. Næsti vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar bankans er 7. maí nk. og hagfræðideildin spáir því að þá verði vextir lækkaðir um 150 punkta, niður í 14%.