Landsbanki Íslands spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% í októbermánuði, og þar með haldist verðbólgan, það er 12 mánaða breyting vísitölunnar, í 3,5% líkt og í síðasta mánuði. Bráðabirgðaspá bankans segir að verðbólgan hækki svo í 3,7% í nóvember, eftir 0,31% hækkun vísitölunnar þann mánuð og svo farið hún í 3,8% í desember, eftir 0,24% hækkun í jólamánuðinum.

Verðbólgan var 1,7% í janúar síðastliðnum, en bankinn spáir því að í janúar á næsta ári verði hún komin í 4,3%, þrátt fyrir 0,31% spáða lækkun vísitölu neysluverðsins að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær spáir hinn ríkisbankinn, Íslandsbanki þvert á móti að í fyrsta sinn frá því í mars muni vísitala neysluverðs lækka í þessum mánuði og þar með verðbólgan fara niður í 3,2%.

Hagstofan birtir mælingar sínar fyrir októbermánuð fimmtudaginn 29. október næstkomandi. Landsbankinn var örlítið yfir í spá sinni fyrir september, en hann hafði spáð 0,44% hækkun vísitölunnar en hún reyndist vera 0,39%.

Landsbankinn býst við því að það fari að draga úr hækkunum á mat og drykkjarvörum. Þær hafa hækkað um 0,8% milli mánaða síðasta hálfa árið, en hækkunin muni verða að jafnaði um 0,4% á milli mánaða næstu mánuði.

Hins vegar spáir bankinn því að föt og skór verði um 6% dýrari í október en í vor áður en sumarútsölurnar byrjuðu, því nú fari verslanirnar að selja vörur sem keyptar hafi verið eftir að gengi krónunnar fór að gefa eftir.

Áhrif húsnæðisverð á reiknaða húsaleigu verður svo 0,4 prósentustig til hækkunar á vísitölunni, en á móti verði áhrif vaxtabreytinga 0,35 prósentustig til lækkunar, svo samantekið verður breytingin 0,05% til hækkunar.