Hagfræðideild Landsbankans spáir að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda vöxtum óbreyttum á næsta fundi nefndarinnar. Ákvörðunin verður tilkynnt miðvikudaginn 6. febrúar. Síðasta vaxtaákvörðun nefndarinnar var í desember síðastliðnum og urðu óbreyttir vextir þá ofan á.

„Í sjálfu sér hefur lítið af nýjum hagtölum komið fram sem ættu að kalla á vaxtabreytingu nú. Ef nefndin ákveður að breyta vöxtum er langlíklegast að þeir verði hækkaðir. Miðað við hvernig nefndin hefur tjáð sig að undanförnu teljum við að hækkun vaxta nú væri í töluverðu ósamræmi við síðustu yfirlýsingar nefndarinnar. Við teljum líkur á hækkun vera litlar að þessu sinni. Vaxtahækkun gæti verið túlkað sem slæmt innlegg í núverandi kjarasamningsviðræður sem eru að viðkvæmu stigi," segir í spá hagfræðideildarinnar.