Í nýrri stýrivaxtaspá Landsbankans gerir greingardeild bankans áfram ráð fyrir því að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist í nóvember. Seðlabankinn reiknar með að stýrivextir haldist óbreyttir fram á 1. ársfjórðung ársins 2009.

Í spá Landsbankans segir að líklegt sé að óbreyttir vextir valdi meiri efnahagssamdrætti en Seðlabankinn spáir á næstu árum, þar sem alþjóðlega lánsfjárskreppan og mikil skuldsetning valdi því að stýrivextirnir bíti nú meira en áður.

Greining Landsbankans telur að svigrúm verði til vaxtalækkunar þegar atvinnuleysi eykst, auk þess sem gengisþróun krónunnar og lækkun fasteignaverðs mun draga úr verðbólgu og verðbólguvæntingum að mati greiningardeildarinnar.

„Þrátt fyrir 15,5% stýrivexti hafa raunstýrivextir á mánaðargrunni verið neikvæðir undanfarna fjóra mánuði. Í júní náði hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar hámarki í 3,4% (49,5% hækkun á ársgrundvelli) en á sama tíma skiluðu stýrivextir 1,3% ávöxtun (16,7% á ársgrundvelli). Sparifé þeirra sem ávaxta fé sitt á óverðtryggðum íslenskum vöxtum hefur því í raun rýrnað í fjóra mánuði í röð. Í slíku umhverfi er skiljanlegt að Seðlabankinn hiki við að lækka vexti.

Við gerum hins vegar ráð fyrir að verðbólga lækki mjög hratt á næstu mánuðum og að raunstýrivextir hækki svo um munar. Gangi spá Seðlabankans sjálfs eftir um stýrivexti og verðbólgu á fyrsta fjórðungi 2009 verða raunstýrivextir á tímabilinu 10-15% á ársgrundvelli. Við teljum ekki að svo mikil aðhaldssemi sé æskileg í núverandi efnahagsástandi og reiknum með að bankinn lækki vexti í nóvember,“ segir í spá Landsbankans.