Stýrivextir verða líklega lækkaðir þegar í næsta mánuði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu greiningardeildar Landsbankans. Þar segir að greiningardeildin geri ráð fyrir því að stýrivextir verði lækkaðir um 50 punkta í mars og um 75 punkta þann 10. apríl., sem er næsti reglulegi vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að Seðlabankinn kynni fyrstu stýrivaxtalækkunina á ársfundi sínum 28. mars. Í því sambandi horfir greiningardeildin til nýgerðra kjarasamninga, auk þess sem rými til vaxtalækkunar aukist hér á landi ákveði Seðlabanki Evrópu að lækka vexti á fundi sínum 6. mars.

Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að vextir lækki um 100 punkta á ársfjórðungi þar til þeir nái 7,5% um mitt næsta ár. Fyrirhugaðar fjárfestingar í stóriðju og stórauknar framkvæmdir hins opinbera komi hins vegar í veg fyrir að vextir lækki meira í bili.