*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 30. september 2020 17:29

Landsbankinn stærsti eigandi Icelandair

Gildi næst stærsti eigandinn í flugfélaginu eftir hlutafjárútboðið með tæplega 7%, en Landsbankinn heldur á 7,5%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn heldur utan um stærsta eignarhlutinn í Icelandair eftir hlutafjárútboð félagsins á dögunum, með tæplega 7,5% hluta, en Gildi lífeyrissjóður er næst stærsti eigandinn með tæplega 7% eignarhlut. Aðrir bankar raða sér í hóp 20 stærstu hluthafa bankans sem félagið hefur nú birt, en gera má ráð fyrir að bankarnir séu að halda utan um hlutina í eignastýringu fyrir aðra.

Auk hlutanna sem Landsbankinn heldur sjálfur utan um sjálfur er sjóður í stýringu Landsbréfa, dótturfélags bankans, meðal 20 stærstu hluthafanna með nálega 2%. Eftir hlutafjáraukningu Icelandair á dögum nemur fjöldi útgefinna hluta í félaginu nú 28.437.660.653 en 23.000 milljón nýir hlutir í Icelandair Group hf. bættust við í gær 29. september 2020.

Stærsti eigandinn utan lífeyrissjóðanna og ríkisbankanna tveggja er félag Pálma Haraldssonar, Sólvöllur með 1,95% og Kvika banki með örlítið færri bréf og nánast jafnstórt hlutfall bréfa. Þar á eftir kemur bandaríski fjárfestingarbankinn Par Investment Partners L.P. sem var um tíma stæsti hluthafinn í Icelandair eftir að hafa komið inn í félagið á síðasta ári.

Arion banki og sjóðir í stýringu, Stefnis, sjóðstýringarfélags í eigu bankans, halda svo utan um þrjá af tuttugu stærstu eignarhlutunum sem samtals nema 1.475.705.412 hlutum. Það samsvarar um 5,2% í félaginu, en hluturinn sem Arion banki heldur á beint nemur 1,82%.

Utan fyrrnefndra aðila og annarra stofnanafjárfesta nær félagið Bóksal ehf. í 20. sætið, en stjórnarformaður þess er Bogi Þór Sigurodsson en hann og Linda Björk Ólafsdóttir eru skráðir eigendur félagsins. Þau hjónin eiga og reka Johan Rönning.

Hver hlutur í félaginu er ein íslensk króna að nafnvirði og eitt atkvæði fylgir hverjum hlut á hluthafafundi. Félagið á enga eigin hluti. Hinir nýju hlutir voru teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag, 30. september 2020.

20 stærstu hluthafar í félaginu eru því sem segir hér að neðan, en listinn miðast við 30. september 2020:

 • Landsbankinn hf.              2.126.302.916 hlutir   7,48%
 • Gildi - lífeyrissjóður               1.878.761.301 hlutir    6,61%
 • Íslandsbanki hf.               1.860.289.959 hlutir     6,54%
 • Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild               1.773.730.661 hlutir     6,24%
 • Brú Lífeyrissjóður               1.356.204.675 hlutir    4,77%
 • Lífeyrissjóður verslunarmanna                  642.361.239 hlutir    2,26%
 • Stefnir - ÍS 15                  568.483.644 hlutir     2,00%
 • Sólvöllur ehf.                  554.704.375 hlutir    1,95%
 • Kvika banki hf.                  553.130.709 hlutir     1,95%
 • Par Investment Partners L.P.                  543.881.750 hlutir    1,91%
 • Landsbréf - Úrvalsbréf                  536.232.220 hlutir     1,89%
 • Arion banki hf.                  517.852.380 hlutir    1,82%
 • Stefnir - ÍS 5                  505.853.032 hlutir     1,78%
 • Stefnir - Samval                  452.000.000 hlutir     1,59%
 • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda                  397.177.554 hlutir    1,40%
 • Birta lífeyrissjóður                  383.553.804 hlutir     1,35%
 • Stapi lífeyrissjóður                  295.507.966 hlutir     1,04%
 • Eftirlaunasj atvinnuflugmanna                  293.861.670 hlutir    1,03%
 • Lífsverk lífeyrissjóður                  255.050.573 hlutir     0,90%
 • Bóksal ehf.                  252.013.653 hlutir    0,89%

UPPFÆRT: Á tíunda tímanum í kvöld barst leiðréttur hluthafalisti.

Hér má lesa frekari fréttir um hlutafjárútboð Icelandair:

Stikkorð: Landsbankinn Icelandair Gildi