Landsbanki Íslands segir í fréttatilkynningu að bankinn stefni að skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum á seinni hluta ársins 2006.

?Á síðari hluta öðrum ársfjórðungs 2006 tók heldur að draga úr óróa sem einkennt hefur þá markaði sem Landsbankinn hefur einkum sótt fjármagn á og viðhorf fjárfesta til fjárfestinga í skuldabréfum bankans var mun jákvæðara. Engu að síður hélt Landsbankinn sig fjarri skuldabréfamörkuðum og lagði áherslu á verkefni sem ætla má að skili fjármögnun á seinni hluta ársins," segir í tilkynningunni.

Bankinn segir að samræmi við stefnu Landsbankans um aukna fjölbreytni í fjármögnun, var unnið að uppsetningu á 144A MTN lánaramma í Bandaríkjunum að upphæð 7,5 milljarðar Bandaríkjadala, sem opnar fyrir möguleika á fjármögnun meðal bandarískra fjárfesta. Uppsetningu rammans lauk 21. júlí og stefnir bankinn að útgáfu skuldabréfa í Bandaríkjunum á seinni hluta ársins 2006.

Landsbankinn tryggði sér nýlega 600 milljón evra sambankalán og var lánið hækkað úr 300 milljónum evra vegna mikillar umframeftirspurnar.