Landsbankinn hefur í samvinnu við sjóðastýringarfyrirtækið AllianceBernstein sett á stofn nýjan erlendan skuldabréfasjóð, Landsbanki Diversified Yield Fund, segir í tilkynningu. Sjóðurinn er rekin frá Íslandi og fjárfestir í erlendum skuldabréfum.

Landsbankinn hefur verið umboðsaðili AllianceBernstein á Íslandi frá árinu 1994 en fyrirtækið er á meðal stærstu sjóðastýringarfyrirtækja heims með yfir 600 milljarða dollara í stýringu.

Þetta er í fyrsta skipti sem AllianceBernstein fer í samstarf við íslenskt fjármálafyrirtæki með þessum hætti og segist Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Eignastýringarsviðs Landsbankans, vera mjög ánægður með samstarfið.

?AllianceBernstein hefur verið öflugur samstarfsaðili Landsbankans á sviði erlendra hlutabréfafjárfestinga í gegnum tíðina og við hlökkum mikið til að hefja samstarfið með þeim á sviði erlendra skuldabréfafjárfestinga.?

Landsbanki Diversified Yield Fund mun leggja áherslu á dreift eignasafn og setja sér ávöxtunarmarkmið um að skila að jafnaði 2-3% yfir LIBOR (USD) millbankakjörum í gegnum heila hagsveiflu. Sjóðurinn verður skráður í íslenskum krónum og verður gjaldmiðlaáhætta hans varin yfir í krónum.

Miðað við ofangreindar forsendur og núverandi vaxtamun er það mat Landsbankans að sjóðurinn geti verið að skila ávöxtun í íslenskum krónum upp á 14-17% auk þess að bjóða upp á góða áhættudreifingu fyrir íslenska fjárfesta og lága fylgni við aðra markaði.