Eignir Nýja Landsbankans í árslok 2008 voru meira virði en samanlagðar eignir Landsbankans og Búnaðarbankans fyrir einkavæðingu þeirra í byrjun árs 2003. Því er íslenska ríkið að fá virðismeiri eignir í sinn hlut með eignaraðild sinni að Nýja Landsbankanum en það seldi frá sér fyrir rúmum sjö árum. Eignir nýja Landsbankans, sem er í 81 prósents eigu íslenska ríkisins, nema 1.037 milljörðum króna samkvæmt stofnefnahagsreikningi hans sem skilað var til ársreikningaskráar í lok janúar síðastliðins. Samanlagðar eignir Búnaðarbankans og gamla Landsbankans í árslok 2002 námu hins vegar 835 milljörðum króna þegar búið er að uppreikna virði þeirra miðað við vísitöluhækkanir.

Meiri eignir en fyrir einkavæðingu

Þrátt fyrir að eignasafn nýju bankanna þriggja hafi skroppið mikið saman eru eignir þeirra rúmlega 40 prósentna meira virði en samanlagðar eignir stóru bankanna þriggja voru fyrir einkavæðingu. Skrifað var undir sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum til Samsonar, eignarhaldsfélags í eigu Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar, á gamlársdag 2002. Hlutur þess í Búnaðarbankanum var síðan seldur til S-hópsins rúmum tveimur vikum síðar. Í árslok 2002 námu samanlagðar eignir Landsbankans, Búnaðarbankans og Íslandsbanka 1.332 milljörðum króna þegar búið er að uppreikna virði þeirra. Íslandsbanki, sem þá var eini eini bankinn í einkaeigu, var stærstur og átti eignir upp á tæpa 500 milljarða króna.