Þrettán námsmenn tóku í dag við námsstyrkjum frá Landsbankanum. Um 400 umsóknir bárust um styrkina, sem eru á bilinu 150 – 350 þúsund krónur. Styrkirnir eru veittir í fjórum flokkum; til framhaldsskóla- og iðnnema, háskólanema, háskólanema á framhaldsstigi og listnema.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Námsstyrkir Landsbankans nema alls 3,8 milljónum kr., sem eru hæstu styrkveitingar banka af þessu tagi á Íslandi. Landsbankinn er eini bankinn sem veitir sérstaka listnámsstyrki, samkvæmt tilkynningunni.

Þetta var í nítjánda sinn sem Landsbankinn veitir námsstyrki og hafa 163 námsmenn hlotið ríflega 32 milljónir kr. frá upphafi.

Dómnefndin var skipuð fólki úr atvinnu- og listalífinu. Formaður dómnefndar var Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.

Auk hennar sátu í dómnefnd Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans, Atli Atlason framkvæmdastjóri Starfsmannasviðs Landsbankans, Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor og formaður viðskiptaskorar í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Ágúst Guðmundsson, forseti Bandalag íslenskra listamanna.

„Dómnefndin leitaðist við að velja framúrskarandi námsmenn með mikinn metnað og framtíðarsýn sem nefndin taldi líklega til að auðga íslenskt samfélag í framtíðinni. Einnig var litið til annarra atriða við valið svo sem afreka í íþróttum, greinaskrifa, sjálfboðastarfa og þátttöku í félagsmálum,“ segir í tilkynningunni.

Eftirtaldir hlutu styrk:

Styrkir til framhaldsskóla- og iðnnáms – 150.000 kr. hver

  • Ásdís Gunnarsdóttir, Iðnskólinn í Reykjavík
  • Bjarni Þór Sigurbjörnsson, Menntaskólinn í Kópavogi
  • Sigurlaug S. Friðþjófsdóttir, Kvennaskólinn í Reykjavík

Styrkir til háskólanáms – 300.000 kr. hver

  • Andri Vilberg Orrason, læknanemandi við Háskóla Íslands
  • Dórótea Höeg Sigurðardóttir nemi í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands
  • Katrín Oddsdóttir, nemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík

Styrkir til háskólanáms á framhaldsstigi – 350.000 kr. hver

  • Gísli Kort Kristófersson,  meistaranemi í klínískri geðhjúkrun við University of Minnesota.
  • Henning Arnór Úlfarsson, doktorsnemi í stærðfræði við Brown University.
  • Steinunn Arnardóttir, meistaranemi í tónlistartækni við Stanford University.
  • Victor Knútur Victorsson doktorsnemi í byggingarverkfræði við Stanford University.

Styrkir til listnáms – 350.000 kr. hver

  • Anna María Bogadóttir meistaranemi í arkitektúr við Columbia University.
  • Eva Þyri Hilmarsdóttir mun hefja nám í Royal Academic of Music í meðleik og kammermúsik í haust.
  • Hafdís Vigfúsdóttir stundar nám í flautuleik við Conservatoire National de Région de Rueil-Malmaison í París.