Landsbankinn var í Landsrétti í dag sýknaður af 154 milljóna kröfu Innness. Deiluefnið var þrjú lán sem Innnes tók í gamla Landsbankanum. Með þessu staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms.

Innnes taldi að tvö lánanna væru íslensk lán sem bundin hefðu verið ólögmætri gengistryggingu. Landsréttur féllst ekki á það en benti í því samhengi á að lánin hefðu verið greidd inn á reikning fyrirtækisins í erlendum myntum í þeim hlutföllum sem kveðið var um á í samningi. Þá hefðu efndir verið í þeim myntum og dæmt að um lögmæt erlend lán væri að ræða.

Hvað þriðja lánið varðaði þá hafði þar verið á ferð lán bundið með ólögmætri gengistryggingu. Taldi Innnes að ekki hefði verið rétt staðið að endurútreikningi vaxta þess. Á það féllst Landsréttur ekki heldur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lán sem Innnes hefur tekið hjá Landsbankanum rata fyrir dóm. Í Hæstarétti árið 2017 var bankinn dæmdur til að greiða Innnesi 141 milljón vegna endurútreiknings á gengistryggðu láni. Við meðferð þess máls komu lánin þrjú, sem þrætt var um í þessu máli, til tals og byggði Innnes á því að þar sem bankinn hefði ekki andmælt útreikningum fyrirtækisins í hinu fyrra máli þá teldust andmæli hans of seint fram komin nú. Á þetta féllst Landsréttur ekki heldur.

Í ljósi niðurstöðu málsins var Innnes dæmt til að greiða bankanum eina milljón króna í málskostnað fyrir Landsrétti.