Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, saman­borið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var -5,9% á árs­grundvelli, samanborið við arðsemi upp á 11,2% á sama tímabili 2019. Bankinn greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur voru 9,4 milljarðar króna samanborið við 10,2 milljarða króna á sama tímabili árið á undan, sem er 8% lækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 2,0 milljörðum króna og lækkuðu um 5,6% frá sama tímabili árið áður.

Virðisrýrnun útlána á fyrsta ársfjórðungi jafngildir um 0,4% af lánasafni bankans. Í lok mars 2020 var vanskilahlutfall útlána 0,7%, sem er sama hlutfall og á sama tíma 2019.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 námu 3,4 milljörðum króna, samanborið við 15,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 8 milljarða króna samanborið við tekjur upp á 2,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 488 milljónir á milli tímabila og nam 6,7 milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við 7,2 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 6,8%. Þar af var launakostnaður 3,8 milljarðar króna samanborið við 3,7 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 2,4 milljarðar króna samanborið við 2,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins var 72,6%, samanborið við 38,7% á sama tímabili árið 2019.

Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 4,4% frá áramótum, eða um rúma 50 milljarða króna en þar af voru um 33 milljarðar króna vegna gengisbreytinga. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 47 milljarða króna frá áramótum, sem er 6,7% aukning.

Eigið fé Landsbankans var 244,1 milljarður króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,8%. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 22. apríl 2020, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða ekki arð vegna rekstrarársins 2019 í ljósi efnahagslegrar óvissu vegna COVID-19 faraldursins og í samræmi við tilmæli Seðlabanka Íslands. Arðgreiðslustefna bankans er óbreytt. Í henni er kveðið á um að Landsbankinn greiði meirihluta hagnaðar í arð til hluthafa en frá 2013 hafa arðgreiðslur bankans numið 142 milljörðum króna .

COVID-19 litar uppgjörið

„Uppgjör bankans og viðsnúningur frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra endurspeglar greinilega þau áhrif sem COVID-19 hefur á efnahagslíf landsins.

Landsbankinn var fljótur að bregðast við yfirvofandi vanda vegna COVID-19 og hefur boðið viðskiptavinum margvísleg úrræði til að takast á við tímabundna greiðsluerfiðleika. Til þessa hafa tæplega 1.250 einstaklingar og fjölskyldur frestað greiðslum á íbúðalánum um sex mánuði en samtals nema útlánin sem um ræðir um 7% af útlánum bankans til einstaklinga. Þá hafa yfir 600 fyrirtæki sótt um að fresta afborgunum en útlánin sem um ræðir nema um 8% af útlánum bankans til fyrirtækja. Mikil áhersla er lögð á að afgreiða óskir viðskiptavina um greiðslufresti og önnur úrræði með skjótum hætti, m.a. með því að gera umsóknarferli fyrir úrræði algjörlega rafræn.

Viðskiptavinir okkar hafa sömuleiðis verið duglegir að tileinka sér nýjar leiðir í bankaþjónustu eftir að hert samkomubann varð til þess að takmarka þurfti verulega aðgengi að útibúum og afgreiðslum bankans. Í apríl höfðu til að mynda tífalt fleiri viðskiptavinir samband í gegnum netspjallið en á sama tíma í fyrra. Frá og með deginum í dag jukum við aftur þjónustu í útibúum. Við sjáum fyrir okkur að margar nýjungar sem hafa verið kynntar, svo sem tímapöntun með sérfræðingum bankans séu komnar til að vera enviðskiptavinir kunna að meta að geta pantað tíma hjá sérfræðingi bankans og fengið viðeigandi ráðgjöf á tíma sem hentar.

Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna sem má rekja til þeirra aðstæðna sem hafa skapast í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Mat á virðirýrnun er í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal og tilmæli frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Íslands. Þessi varúðarfærsla, ásamt áhrifum af óróa á hlutabréfamörkuðum, á stærstan þátt í því að bankinn bókfærir tap á fyrsta ársfjórðungi 2020 upp á um 3,6 milljarða króna, samanborið við hagnað upp á 6,8 milljarða króna vegna fyrsta ársfjórðungs 2019. Útlán til ferðaþjónustu eru 95,7 milljarðar króna, sem nemur um 8,1% af heildarútlánum bankans, og er lækkun um rúman hálfan milljarð króna frá árslokum 2019.

Ekki er útséð um endanleg áhrif faraldursins. Þó má telja líklegt að minni tekjur viðskiptavina og aukin skuldsetning muni hafa neikvæð áhrif á lánshæfi þeirra sem leiðir til enn meiri virðisrýrnunar útlána. Landsbankinn er í góðri stöðu til að takast á við  þessar aðstæður. Eigið fé bankans nemur rúmlega 244 milljörðum króna, eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er sterk og niðurstaða vel heppnaðs skuldabréfaútboðs að fjárhæð 300 milljónir evra í febrúar endurspeglar traust til bankans á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Rekstur bankans er að öðru leyti stöðugur og í samræmi við áætlanir. Ánægja með þjónustuna og traust til bankans fer vaxandi og mælingar Gallup á fyrsta ársfjórðungi sýna að markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er orðin 38,0%, hærri en nokkru sinni fyrr. Innlán hafa aukist og góð vaxtakjör bankans hafa leitt til meiri eftirspurnar eftir nýjum íbúðalánum en búist var við.

Þrátt fyrir þetta óvænta efnahagsáfall og neikvæða afkomu á fyrsta ársfjórðungi er hugur í starfsfólki bankans og það er ávallt í forgangi að veita viðskiptavinum okkar trausta og góða þjónustu," segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningunni.