*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 30. júlí 2020 16:44

Landsbankinn tapar 3,3 milljörðum

Landsbankinn hagnaðist um 341 milljón króna á öðrum fjórðungi ársins, arðsemi eiginfjár er neikvæð um 2,7% á fyrra hluta árs.

Alexander Giess
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Gígja Einars

Afkoma Landsbankans er neikvæð um 3,3 milljarða króna á fyrri helmingi ársins og arðsemi eiginfjár neikvæð um 2,7%. Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi 2020 nam 341 milljón króna. Hagnaður bankans nam 11 milljörðum á fyrri hluta ársins 2019 og nam arðsemi eiginfjár 9,1% þá. Þetta er meðal þess sem lesa má úr hálfsársuppgjöri Landsbankans.

Á öðrum fjórðungi ársins nam tap bankans fyrir skatta 558 milljónir en tekjuskattur félagsins bætti afkomu bankans um 899 milljónir og afkoman því jákvæð eftir skatta. Hagnaður fyrir skatta er neikvæður um 3,9 milljarða það sem af er ári. Kostnaðarhlutfall bankans nam 54% á fyrri hluta ársins en 40% á sama tíma á fyrra ári. Hlutfallið var 43% á öðrum fjórðungi ársins en 73% á þeim fyrsta.

Mikil niðurfærsla sökum COVID-19

Virðisrýrnun Landsbankans nam 13,4 milljörðum á fyrri hluta ársins 2020 þar sem 12,9 milljarðar voru niðurfærðir vegna lána til fyrirtækja en 539 milljónir niðurfærðar vegna lána til einstaklinga. Virðisrýrnun nam 2,4 milljarða á sama tíma árið 2019. Virðisrýrnun bankans nam 8,2 milljörðum á öðrum fjórðungi þar sem ríflega 8 milljarðar voru vegna fyrirtækja en einungis 124 milljónir vegna einstaklinga.

Viðskiptavinir sem eru með 16% af útlánum bankans hafa nýtt sér tímabundna frestun afborgana og vaxta. Bókfært brúttó virði útlána bankans til ferðaþjónustu nam 101 milljarði króna og eru 73% útlána til þjónustugeirans í lok fyrri hluta árs 2020. Heildarútlánaáhætta bankans gagnvart ferðaþjónustu nemur 8,2% af lánasafni bankans í lok fyrri hluta árs.

Bókfært brúttó virði útlána til einstaklinga sem hafa fengið samþykkt COVID-19 úrræði af bankanum námu 39,4 milljörðum króna eða 7,8% af útlánum til einstaklinga, í lok fyrri hluta árs.

Rekstrartekjur helmingast

Rekstrartekjur Landsbankans námu 5,9 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins en 12,9 milljarða á sama tímabili á fyrra ári og drógust því saman um 54% milli ára. Rekstrartekjur félagsins nema tæplega 9,3 milljörðum á fyrri helming ársins sem er 67% samdráttur frá fyrri helming ársins 2019 þegar þær námu 28 milljörðum.

Vaxtatekjur bankans drógust saman um 11,4% á fjórðungnum miðað við árið 2019, úr ríflega 20 milljörðum króna í 18,2 milljarða en þjónustutekjur bankans drógust saman um 16%.

Lausafjárstaðan sterk

Eiginfjárhlutfall Landsbankans nemur nú 24,9% og hefur því hækkað um ríflega prósentustig milli ára. Eigið fé bankans nemur 244 milljónum króna. Hlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 nemur 22,8%.

Heildareignir bankans nema 1.501 milljarði króna og hefur hækkað um 5,2% það sem af er ári. Tæplega 1.200 milljarðar eru útlán og kröfur viðskiptavina, þar af eru um 650 milljónir lán til fyrirtækja og 500 milljónir lán til einstaklinga.

„Mat á væntu útlánatapi sem fært er sem framlag í virðisrýrnunarsjóð er ráðandi í uppgjöri bankans á fyrri helmingi ársins og er í samræmi við versnandi efnahagshorfur. Sterkur efnahagur bankans er gott veganesti inn í þá óvissu sem er fram undan, þótt vissulega sé arðsemin á þessu ári verulega undir markmiðum bankans til lengri tíma. 

Á öðrum ársfjórðungi, líkt og þeim fyrsta, lagði bankinn umtalsverðar fjárhæðir í virðisrýrnunarsjóð til að mæta mögulegum áföllum vegna heimsfaraldursins. Efnahagshorfur versnuðu töluvert frá lokum mars til júníloka sem hafði áhrif á mat stjórnenda og aðgerðir til að mæta væntum útlánatöpum. Spá bankans um hagvöxt lækkaði verulega eða úr 2% hagvexti í 8,7% samdrátt,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans.