Landsbankinn hefur eignast allt hlutafé í verktakafyrirtækinu Björgun ehf. sem var í eigu Renewable Energy Resources ehf. (RER) dótturfyrirtækis Atorku Group hf.. Í fréttatilkynningu kemur fram að  í tengslum við skuldauppgjör RER hefur bankinn leyst til sín þau veð sem bankinn átti í eigum félagsins.

„Landsbankinn hefur þegar fengið undanþágu til samruna bankans og Björgunar ehf. hjá Samkeppniseftirlitinu.  Áætlað er að Landsbankinn muni selja Björgun í opnu söluferli innan 6 mánaða og verður fyrirkomulag þess kynnt þegar nær dregur.  Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans mun annast söluna," segir í tilkynningunni.

Björgun ehf. var stofnað 1952 og er þekktast fyrir efnisnám úr sjó og  er stærsti framleiðandi jarðefna til mannvirkjagerðar á Íslandi auk þess að annast framkvæmdir við dýpkun hafna.  Þá hefur félagið verið í uppbyggingu bryggju- og strandhverfa hér á landi.

Um 35 manns starfa hjá Björgun og eru engar breytingar á rekstri félagsins fyrirhugaðar samkvæmt tilkynningu og er rekstur Björgunar ehf. sagður í jafnvægi.  Landsbankinn mun skipa Björgun ehf. nýja stjórn til skamms tíma. Framkvæmdastjóri er Gunnlaugur Kristjánsson.