Dótturfélag Landsbankans hefur tekið yfir allt hlutafé Hátækni ehf., sem hefur verið að stórum hluta í eigu Olís. Samkvæmt yfirlýsingu Kristjáns Gíslasonar, stjórnarformanns Hátækni, gerðist þetta á mánudaginn. Í henni segir að ekki verði fjöður dregin yfir þá staðreynd að rekstur Hátækni hafi verið afar erfiður undanfarin misseri og ár.

Hann segir að farsímasala hafi alla tíð verið umfangsmikil í rekstri Hátækni, en fyrirtækið hefur verið umboðsaðili Nokia frá árinu 1985, lengst allra umboðsaðila Nokia. Nokia hafi misst sæti sitt sem stærsti farsímaframleiðandi heims og þrátt fyrir að hafa gert nýja og metnaðarfulla síma hafi allt komið fyrir ekki. Hin mikla og hraða niðursveifla Nokia hafi haft afar neikvæð áhrif á Hátækni, eins og alla aðra umboðsaðila fyrirtækisins, um heim allan.

Þá hafi Hátækni verið á sama tíma til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu, en sú rannsókn tók um þrjú ár og varð félaginu mjög dýrkeypt.

„Ógjörningur reyndist að bregðast við niðursveiflunni í símasölunni með því að bæta vöruúrvalið, því birgjar vildu ekki gera umboðssamning við félagið á meðan það var til rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum. Í trausti þess að Nokia myndi takast að rétta úr kútnum, þá hefur hlutafé Hátækni sífellt verið aukið til að mæta taprekstri, auk þess sem ráðist var í miklar hagræðingar. Í því sambandi má nefna að félagið var flutt í minna húsnæði, starfsfólki fækkað og rekstrareiningar seldar. Þá var einnig gengið til samninga við Samkeppniseftirlitið um lúkningu þess máls, til þess að koma félaginu úr þeirri sjálfheldu sem það var komið í.

Það var sannfæring stjórnar Hátækni að Nokia hefði styrkt stöðu sína hraðar með því að hefja einnig framleiðslu á Android snjallsíma, auk Windows síma. Til þess kom þó ekki eftir að Microsoft keypti Nokia og þykir okkur því ljóst að það muni taka einhvern tíma að Nokia nái vopnum sínum. Vegna þessa og hins að of kostnaðarsamt yrði að bíða eftir að Microsoft næði að vinna félagið upp, ákvað eigandinn að hætta að fleyta félaginu með innspýtingu nýs hlutafjár. Sala/yfirtaka félagsins til Landsbankans er því óumflýjanlegt framhald af þeirri ákvörðun, en Landsbankinn er stærsti kröfuhafi félagsins,“ segir í yfirlýsingunni.

Kristján lýkur svo yfirlýsingunni með því að segja að eftir á að hyggja hafi of lengi verið haldið í vonina um að Nokia myndi takast að snúa óheillaþróuninni við.