Hagfræðideild Landsbankans metur virði Reita 23% hærra en núverandi gengi, samkvæmt fréttablaðinu . Gengi hlutabréfa í Reitum er í dag rétt rúmar 80 krónur á hlut, en samkvæmt verðmati Landsbankans er virði þeirra 98,6 krónur á hlut.

Bent er á að gengi Reita hafi lækkað um fjórðung frá síðasta sumri án sýnilegrar ástæðu í rekstri félagsins, og þrátt fyrir lægri ávöxtunarkröfu.

Greinendur Landsbankans eru svo til sammála stjórnendum Reita þegar kemur að væntum tekjum og rekstrarhagnaði Reita í ár, þar sem gert er ráð fyrir rúmum 11 milljörðum í tekjur og tæpum 7 og hálfum í rekstrarhagnað.

Að lokum er tilvonandi hækkun fasteignamats og þar með fasteignagjalda sögð að óbreyttu þýða að rekstrarhagnaður ársins 2019 muni standa í stað frá árinu í ár.