Greiningardeild Landsbankans telur að útboðsgengi Exista sé hátt. "Verðlagning félagsins gerir hins vegar ráð fyrir hárri ávöxtun eigin fjár og teljum við útboðsgengið hátt," segir í sérriti greiningardeildar Landsbankans.

Þar er bent á að til að útboðsgengið teljist hagfellt fyrir fjárfesta, "... þarf að vera meira af duldum eignum í félaginu en við teljum raunhæft að gera ráð fyrir og ávöxtun til framtíðar þarf að vera talsvert yfir markaðsávöxtun."

Greiningardeild Landsbankans bendir á að starfsemi Exista byggi á góðri viðskiptahugmynd, eignir félagsins séu traustar og stjórnendur þekktir fyrir góðan árangur í fjárfestingum sínum.

Greiningardeildin hnýtur sérstaklega um verðlagningu á VÍS: "Exista keypti Vátryggingafélag Íslands (VÍS) að fullu í lok maí á þessu ári. Verðmæti hlutafjár VÍS í kaupunum var 65,8 ma.kr. og gáfum við strax út þá skoðun að það væri hátt verð. Stjórnendur Exista ætla sér að bæta rekstur VÍS umtalsvert. Við teljum
áform þeirra að flestu leyti raunhæf og skynsamleg en færum þó rök fyrir því að ekki sé ástæða til að hækka fyrra mat okkar á verðmæti VÍS," segir greiningardeildin. Hún telur hins vegar verðlagningu Símans í útboðinu sanngjarna: "Síminn, sem Exista eignaðist tæp 44% í eftir einkavæðingarferli í fyrra, er að okkar
mati sanngjarnt metinn í bókum félagsins. Markaðshlutdeild Símans er góð og virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi í um 70%. Eftir eigendaskiptin er Síminn orðinn mun skuldsettari en áður, en gott sjóðstreymi styður við bókfært verð hans."