Bankasýsla ríkisins hefur lokið athugun á sölumeðferð Landsbankans á eignarhlut bankans í Borgun. Bankasýslan segir að röksemdir bankans fyrir lokuðu söluferli á eignarhlut bankans í Borgun séu ófullnægjandi og að Landsbankinn þurfi að endurheimta traust.

Bankasýslan segir að vegna þeirrar gagnrýni sem sala bankans á Vestia fékk þá hefði bankinn þurft að rökstyðja sérstaklega frávik frá meginreglunni að viðhafa opið söluferli á eignum bankans. Sérstaklega er bent á að í tilfelli sölunnar á Vestia þá hafi bankinn fengið undanþágu á grundvelli ákveðinna neyðarsjónarmiða, sem áttu ekki við þegar salan á Borgun var á dagskrá.

Einnig kemur fram að margt bendi til þess að bankinn hafi dregið rangar ályktanir af samskiptum hans við Samkeppniseftirlitið varðandi mögulega fresti og svigrúm til að selja eignarhlutinn í Borgun.

Verklagi var ábótavant

Fram kemur að það er mat Bankasýslunnar að verklagi við samningsgerð Landsbankans hafi verið ábótavant. Jákvætt er að samið hafi verið um hlutdeild vegna þáttöku Valitor vegna sölu Visa Europe en engin haldbær rök hafi komið fram hvers vegna það hafi ekki verið gert í tilfelli Borgunar, en sala á eignarhlutunum fór fram samhliða.

Þurfa að endurheimta traust

Bankasýslan segir að það sé mikilvægt að Landsbankinn endurheimti traust eigenda sinna, viðskiptavina, fjárfesta sem og almennings í landinu. Bankasýslan segir að sölumeðferðin hafi vapað verulegum skugga á árangur Landsbankans við endurheimtur trausts á síðustu árum og að fagleg ásýnd bankans og stjórnendur hans hafi beðið hnekki.

Bankasýslan telur að bankaráð Landsbankans verði að grípa til aðgerða til að endurheimta traust og trúverðugleika sem sölumeðferðin á eignarhlutnum í Borgun kostaði bankann. Bankasýslan óskar eftir því að bankaráðið gerir henni grein fyrir því hvernig það ætli að bregðast við og gefur því frest til 1. apríl, eða tveimur vikum fyrir aðalfund sem fer fram þann 14. apríl.

Virða frestinn

Landsbankinn hefur sent frá sér viðbrögð við bréfi Bankasýslunnar þar sem bankaráð segir að það muni svara innan þess frests sem tilgreindur er í bréfinu.