Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna kröfur Landsbankans hf. af kröfum Landsbanka Guernsey Ltd.

Landsbankinn Guernsey hafði krafið Landsbankann um greiðslu á um 12,75 milljón sterlingspunda, um 629 þúsund evrum og tæplega 3,1 milljón Bandaríkjadala. Samtals nemur upphæðin um það bil 3.020 milljónum íslenskra króna.

Bankarnir deildu m.a. um það hvort að það fé sem Landsbankinn Guernsey átti hjá Landsbankanum á Íslandi í byrjun október 2008 hafði verið millibankalán eða hvort það hefði ígildi almennrar innstæðu á hlaupa- eða sparireikningi. Hæstiréttur segir ljóst að þegar Landsbankinn Guernsey lagði fé inn hjá LÍ hf. á árunum 2006 til 2008 hefði verið um að ræða lánafyrirgreiðslu frá einni fjármálastofnun til annarrar á millibankamarkaði. Það gæti engu máli skipt þótt að félagið væri dótturfélag Landsbanka Íslands og lotið stjórn hans.

Einnig var deild um hvort að Landsbankinn þyrfti að greiða upphæðina vegna ákvarðana Fjármálaeftirlitsins á grundvelli neyðarlaga, dagana 9. október og 11. nóvember árið 2008, þar sem nýi Landsbanki tók yfir skuldbindingar gamla. Samkvæmt fyrra fordæmi Hæstaréttar var ljóst að skuldbindingar þær sem stofnuðust á grundvelli slíkra lánveitinga á millibankamarkaði hefðu ekki flust yfir.

Landsbankinn hf. var því sýknaður af öllum kröfum Landsbanka Guernsey Ltd. en sá síðastnefndi var dæmdur til að greiða sem nemur þremur milljónum í málskostnað fyrir héraði og Hæstarétti.