Landsbankinn [ LAIS ] er að stíga sín fyrstu skref í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Unnið er að því að koma  á fót skrifstofu í Abu Dhabi.

Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við Viðskiptablaðið að vægi Mið-Austurlanda verði æ mikilvægara og svæðið valdameira. Mikilvægt sé að vera þar með starfssemi .

„Ástæðan fyrir því við völdum Abu Dhabi var sú að við lítum á að þetta sé ákveðinn kjarnapunktur í svæðinu hvað varðar völd og áhrif. Það er reyndar flóknara og erfiðara að koma sér fyrir á þessum stað en til dæmis í Dubai. En við töldum þetta hinsvegar rétt. Þetta svæði er eitt af mikilvægu svæðum framtíðarinnar - og er orðið  það nú þegar í dag,“ segir Sigurjón.

Landsbankinn mun hefja umsóknarferlið fyrir starfsleyfið í næsta mánuði. Það gæti tekið um sex til tólf mánuði að fá starfsleyfið. Marcus Ulander, sem starfað hefur fyrir Landsbankann frá því í júní 2006, er fyrsti starfsmaður bankans í Abu Dhabi og vinnur að því að koma starfseminni á legg.

Ulander bendir á í viðtali við Moment, tímarits Landsbankans, að hátt olíuverði hafi valdið því að á þessu svæði eru menn með fulla vasa fjár. Þessum fjármunum er síðan varið í fjárfestingar bæði innanlands sem utan.

Landsbankinn stofnaði einnig skrifstofu í Hong Kong fyrir skömmu.