Landsbanki Íslands hefur samþykkt að kaupa 50% hlut í írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Á næstu árum mun bankinn svo eignast allt hlutafé í Merrion og verðmiðun síðari hluta fjárfestingarinnar ræðst af rekstrarárangri Merrion á komandi árum, segir í tilkynningunni. Í upphafi miðast heildarverðmæti fyrirtækisins við 55,3 milljónir evra, eða rúmlega fjóra milljarða íslenskra króna.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans sagði írska fjármálamarkaðinn afar áhugaverðan kost fyrir Landsbankann vegna stærðar, staðsetningar og einkenna.

?Við teljum Landsbankann eiga fullt erindi á írskan fjármálamarkað. Okkur þykir mikið koma til velgengni Merrion sem leiðandi óháðs aðila á írskum fjármálamarkaði á sviði verðbréfaviðskipta. Samstarf þetta mun gera okkur kleift að hraða sókn Landsbankans í Evrópu á sviði fyrirtækja- og fjárfestingabankastarfssemi. Að sama skapi mun samstarfið stuðla að víðtækari tekjugrunni bankans og breikka starfssvið og umfang hans á alþjóðavettvangi, segir Sigurjón í tilkynningunni.

John Conroy, forstjóri Merrion kvaðst afar ánægður með að fá Landsbankann sem hluthafa nú þegar Merrion er að hefja nýtt og spennandi skeið á ævi félagsins.

?Á tiltölulega stuttum tíma hefur Merrion byggt upp sterka stöðu á írska markaðinum sem í okkar huga býður upp margvísleg tækifæri fyrir metnaðarfullt og lifandi fyrirtæki í almennri fjármálaþjónustu. Merrion vill auka enn á velgengni félagsins og stjórnendur þess hafa hrifist af framtíðarsýn Landsbankans og staðfestum ásetningi hans um að skjóta traustum rótum á Írlandi," segir Conroy.

Merrion var stofnað 1999 og er í fremstu röð verðbréfa- og fjármálafyrirtækja á Írlandi með 5-10% hlutdeild á þeim mörkuðum sem félagið starfar á, segir í tilkynningu Landsbankans.

Starfsmenn félagsins í dag eru 75. Fyrir kaupin áttu starfsmenn 70% eignarhlut í fyrirtækinu en bandaríski fjárfestingabankinn Allen & Company Inc. 30%. Merrion hefur skilað hagnaði frá stofnun en hagnaður ársins 2005 fyrir skatta er áætlaður 7 ? 7.5 milljónir evra, sem er ríflega hálfur milljarður íslenskra króna. Landsbankinn segir að kaupin muni ekki hafa veruleg áhrif á rekstrarafkomu bankans.