Landsbankanum er óheimilt lögum samkvæmt að tjá sig um einstök viðskipti eða málefni viðskiptamanna sinna og mun sem fyrr fylgja þeim lögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum sem send var út fyrir skömmu vegna umræðna á Alþingi og í fjölmiðlum í gær um fjölmiðlafyrirtækið 365 og Landsbankann.

„Landsbankinn vekur athygli á því að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður 365, lýsti því yfir síðdegis í gær að Landsbankinn hefði ekki veitt fyrirgreiðslu vegna viðskiptanna sem þar hafi átt sér stað síðustu daga og að allar upplýsingar um annað væru rangar,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir jafnframt:

„Landsbankinn vill jafnframt taka fram að bankinn kaupir ekki eða selur félög eða fyrirtæki né hefur milligöngu um slíkt nema með skýru umboði frá eigendum viðkomandi félags.  Bankinn mun hins vegar sem fyrr vernda viðskiptalega hagsmuni sína og þau verðmæti sem felast í eignum bankans.“