Landbanki Íslands hefur lokið söfnun hlutafjár í fjárfestingarfélaginu Blåfall Energi AS, sem hefur það hlutverk að fjárfesta í vatnaflsvirkjunum í Noregi, segir í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að nýja félagið mun í samstarfi við landeigendur þróa, byggja og reka vatnsaflsvirkjanir á bilinu 1 til 10 MW, en heildarfjárfestingageta Blåfall Energi er um tólf milljarðar króna.

"Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í uppbyggingu smávirkjana í Noregi enda stefna stjórnvalda þar að auka framleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum um 30 TWh á tímabilinu 2001 til 2016. Í þeim tilgangi hafa stjórnvöld samþykkt að greiða framleiðendum vistvænnar orku sérstakt álag á orkuverð, auk þess sem markaður fyrir umhverfisvænan þátt orkunnar hefur vaxið umtalsvert í Evrópu," segir í tilkynningunni.

Að Blåfall Energi standa fjárfestar með þekkingu og reynslu á sviði umhverfisvænnar orku. Fjárfestar eru frá Finnlandi, Hollandi og Íslandi en félagið er að auki í samstarfi við norskan aðila, Green Stream Network, um framkvæmd verkefnisins.

Að sögn framkvæmdastjóra félagsins, Arne Jakobsen, mun félagið bjóða landeigendum upp á heildarlausn á sviði fjármögnunar, hönnunar, reksturs og orkusölu. Stefnt er að því að framkvæmdir við fyrstu virkjanirnar geti hafist nú á vormánuðum. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist hlutafjársöfnun og undirbúning verkefnisins.

GunnarJóhannesson, hjá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, segir að um ræði arðbært fjárfestingaverkefni þar sem alþjóðlegir aðilar með sérþekkingu á orkumálum eru meðal fjárfesta. Landsbankinn hefur um árabil unnið að verkefnum tengdum endurnýjanlegri orku á alþjóðlegum markaði, enda fyrirsjáanleg vaxtartækifæri framundan.