Landsbankinn, stærsta fjármálafyrirtæki landsins, uppfyllir nú kröfur FME um 16% lágmarkseiginfjárhlutfall (CAD) en í lok fyrsta ársfjórðungs nam hlutfallið 16,3%. Um áramótin var eiginfjárhlutfall bankans hins vegar 15,1% og höfðu stjórnendur bankans átt í viðræðum við Bankasýslu ríkisins um lausn mála. Um sama leyti var eiginfjárhlutfall Íslandsbanka 19,8% og Arion Banka 13,5%. Snemma í janúar lagði Kaupskil, stærsti hluthafinn í Arion, bankanum til víkjandi skuldabréf sem gerði það að verkum að Arion uppfyllti eiginfjárkröfur FME.

FME hefur sett viðskiptabönkum og sparisjóðum skilyrði um 16% eiginfjárhlutfall (CAD) auk 12% eiginfjárþáttar A (Tier 1) sem þarf að viðhalda í þrjú ár að lágmarki. Fyrir bankahrunið  lágu CAD-mörkin í 8%.

Styrking krónunnar hafði mikil áhrif

Landsbankinn hagnaðist um 8,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en til samanburðar nam hagnaður alls ársins 2009 um 14,3 milljörðum króna. Var arðsemi eiginfjár 21% á ársgrundvelli. Hreinar rekstrartekjur voru um 14,7 milljarðar, samanborið við 30,7 milljarða allt árið í fyrra. Gengisstyrking krónunnar hefur mikil áhrif á uppgjörið. Fram kemur að gengishagnaður bankans  vegna styrkingar krónunnar hafi numið rúmum sex milljörðum króna á fjórðungnum.