Landsbankinn hefur útvistað allri starfsemi lögfræðideildar bankans sem snýr að innheimtu á vanskilakröfum til Motus innheimtuþjónustu. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin í júní síðastliðnum. „Það er alþekkt að fyrirtæki útvisti lögfræðiinnheimtu og mjög algengt t.d. í erlendri bankastarfsemi að þessi leið sé farin, bæði til auka skilvirkni og spara fé við innheimtuna sjálfa,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, í svari til Fréttablaðsins.

Landsbankinn bauð verkefnið ekki út en Kristján segir að reynslan af fyrra samstarfi við Motus hafi verið góð. „Landsbankinn hefur um árabil útvistað hluta af innheimtu vanskilakrafna. Motus hefur lengi sinnt afmörkuðum þáttum í innheimtu fyrir bankann, reynslan af því samstarfi hefur verið góð og aukning á samstarfinu veitir ýmis tækifæri til að auka skilvirkni í innheimtumálum bankans,“ segir Kristján.

Af þeim fastráðnu starfsmönnum innheimtudeildar Landsbankans sem ekki fengu áframhaldandi starf í bankanum var öllum boðið starf hjá Motus, að sögn Kristjáns. Flestir hafi þegið boðið.