Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna hefur verið úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans til alls 38 verkefna.

Verkefnin eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri, víða um land segir í fréttatilkynningu. Þrjú verkefni hlutu hæsta styrkinn, að fjárhæð 1 milljón króna.

  • List án landamæra

Á listahátíðinni er sjónum beint að fötluðum listamönnum og þeim gefið tækifæri til að sýna krafta sína og listfengi. List án landamæra fagnar öðru fremur fjölbreytileikanum og því hvernig listin hefur jákvæð áhrif á líf okkar allra.

  • Rauði krossinn í Kópavogi

Styrkurinn er veittur til verkefnisins Félagsvinir eftir afplánun. Þetta er stuðningsverkefni þar sem fangar geta fengið félagslegan stuðning til þess að hjálpa þeim að byggja upp nýtt og heilbrigðara félagslegt net eftir að afplánun lýkur.

  • Kvenréttindafélag Íslands

Styrkurinn er veittur til verkefnisins Kynjafræði á öllum skólastigum en félagið hyggst styrkja kynjafræðikennslu á öllum skólastigum með því að halda samráðsfund með kennurum sem kenna kynjafræði og gefa út námsefni fyrir kennslu í kynjafræði.

Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæka útgáfustarfsemi og verkefni á sviðum menningar og lista.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni, leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar. Úthlutunin fór fram fimmtudaginn 14. desember.