Þremur milljónum króna var í gær veitt úr Menningarnæturpotti Landsbankans til 36 verkefna og viðburða sem fram fara á Menningarnótt. Menningarnæturpottur er samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.

Tilgangurinn með pottinum er að veita marga en hóflega styrki til einstaklinga og hópa sem vilja skipuleggja frumlega og áhugaverða viðburði á Menningarnótt. Allur fjárstuðningur Landsbankans vegna samstarfssamnings bankans við Reykjavíkurborg um Menningarnótt rennur beint til listamanna og hópa sem koma fram á hátíðinni. Við úthlutun styrkja í ár var kastljósinu meðal annars beint að viðburðum á Hverfisgötu og nágrenni en um helmingur viðburðanna sem styrktir voru falla undir þann flokk.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er veitt úr Menningarnæturpottinum. Alls bárust um 200 umsóknir í ár en aldrei hafa fleiri umsóknir borist. Starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana.

Landsbankinn mun til viðbótar við þessa styrki verða með árvissa menningardagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt – en hægt er að lesa sér nánar til um hana á menningarnott.is.

Gakktu í bæinn

Menningarnótt verður haldin í nítjánda sinn laugardaginn 23. ágúst næstkomandi. Viðburðir af öllum toga verða haldnir á torgum og götum, í húsasundum og görðum, í galleríum, verslunum, menningarstofnunum og heimahúsum og munu fylla miðborgina lífi. Þema Menningarnætur í ár er „Gakktu í bæinn“ og vísar til þeirrar gömlu íslensku venju að bjóða gesti velkomna og gera vel við þá. Í lok Menningarnætur verður að vanda vegleg flugeldasýning.

Höfuðborgarstofa sér um skipulagningu Menningarnætur en samstarfsaðilar eru Landsbankinn og Vodafone.