Hagfræðideild Landsbankans hefur sent frá sér verðbólguspá, en Hagstofan mun birta septembermælingu vísitölu neysluverðs fimmtudaginn 25. september nk.

Hagfræðideildin spáir 0,2% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan lækka lítillega, eða úr 2,2% í 2,1%.

Helstu áhrifavaldar til hækkunar milli mánaða eru föt og skór sem hækka að jafnaði milli mánaða í september vegna útsöluloka. Mun þetta hækka vísitöluna um 0,23% að mati bankans. Þá munu tómstundir og menning hækka vísitöluna um 0,05%.

Aðalsumarleyfistíma Íslendinga lauk í ágúst og munu flugfargjöld til útlanda því lækka í september. Hefur þetta áhrif til lækkunar á vísitölunni um 0,16% að mati bankans. Þá mun lækkun verðs á húsbúnaði IKEA einnig hafa áhrif.

Bráðabirgðaspá Hagfræðideildar Landsbankans gerir svo ráð fyrir 0,3% hækkun í október, 0,3% í nóvember og 0,4% í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan í desember mælast 2,2%, eða 0,3% undir verðbólgumarkmiði.