Landsbankinn hlaut í fyrradag verðlaun IR Magazine, sem veitt voru í Kaupmannahöfn, fyrir bestu fjárfestatengsl hjá íslensku fyrirtæki. Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, bankastjórar Landsbankans, hlutu einnig verðlaun fyrir framúrskarandi stuðning við fjárfestatengsl bankans, samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Þrjú önnur íslensk fyrirtæki voru tilnefnd til verðlaunanna: Kaupþing og Bakkavör fyrir bestu fjárfestatengsl hjá íslensku fyrirtæki, og Össur og Bakkavör fyrir stuðning yfirmanna við fjárfestatengsl.

„Við leggjum okkur fram um að stuðla að opnu flæði upplýsinga um bankann, stefnu og afkomu hans til markaðsaðila. Gegnsæ og hreinskiptin samskipti við markaðsaðila hafa sjaldan verið mikilvægari en einmitt núna, þannig að við erum afar stolt af því að fá þessa viðurkenningu,“ sögðu Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, bankastjórar Landsbankans.

„Við gefum okkur mikinn tíma með greinendum á mörkuðum, bæði þeim sem fjalla um Landsbankann og íslensk efnahagsmál. Það er ánægjulegt að finna að sú vinna sé vel metin og auki skilningi á bankanum og heimamarkaði hans,“ bæta þeir við. „Þó þessir fundir séu fyrst og fremst hugsaðir til þess að miðla upplýsingum til markaðarins, er þetta oft gagnlegur vettvangur fyrir Landsbankann til að fá endurgjöf frá markaðsaðilum um sértæk málefni bankans eða líðandi stundar.“