Landsbankinn opnar nýja kynslóð útibúa í Vesturbæjarútibúi sínu við Hagatorg í Reykjavík á mánudag í næstu viku.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að útibúið er það fyrsta sinnar tegundar hérlendis en í því verða í notkun nýstárlegir hraðbankar þar sem hægt er að sinna öllum almennum bankaviðskiptum,  engar gjaldkerastúkur verða í útibúinu,  tölvur verða til reiðu fyrir viðskiptavini sem vilja nýta þær til að sinna sínum erindum í bankann, breytt fyrirkomulag verður á þjónustu, reiðufé verður aðeins afgreitt í hraðbönkum og fleiri nýjungar mætti nefna. Aukin sjálfvirkni og nýting tækninnar mun veita starfsfólki svigrúm til að sinna viðskiptavinum betur og veita þeim umfangsmeiri ráðgjöf.