*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 20. nóvember 2013 14:28

Landsbankinn vill bæta áhættustýringuna

Gangi allt eftir hjá Landsbankanum mun aðferð hans við gerð áhættumats verða sambærileg og hjá bestu bönkum Norðurlandanna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn vinnur að viðamiklum umbótum á áhættustýringu bankans og lagði fyrr á árinu inn umsókn um svokallaða innrimatsaðferð við mat á eiginfjárkröfu vegna útlánaáhættu bankans til Fjármálaeftirlitsins (FME). Umsóknin er nú til meðferðar hjá FME. Fáist leyfið felur það í sér að aðferð Landsbankans við áhættumat verður sambærilegt og hjá bestu bönkum á hinum Norðurlöndunum, að mati Landsbankans. 

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að niðurstaða matsins geti sagt til um hlutfall eiginfjár fjármálafyrirtækis og þar með fjárhagslegan styrk þess. Veiti eftirlitið umsókninni samþykki verður það ótvíræður gæðastimpill fyrir áhættustjórnun bankans.

Þá segir í tilkynningunni að með hliðsjón af hinum svonefndu Basel-reglum geta fjármálafyrirtæki valið milli tveggja aðferða við mat á eiginfjárkröfu, annars vegar tiltölulega einfaldrar staðlaðrar aðferðar eða mun vandaðri og nákvæmari aðferðar (innramatsaðferð).

Áhættustýring Landsbankans hefur síðastliðin ár þróað lánshæfislíkön til að beita innramatsaðferð. Þessi líkön byggja á upplýsingum um fjárhagsstöðu lánþega, greiðslugetu þeirra og viðskiptasögu og þessir þættir mynda saman lánshæfismat sem gegnir mikilvægu hlutverki við áhættustjórnun. Auk þess tryggja líkönin að allar ákvarðanir um lánveitingar byggi á áhættumati og að verðlagning lána endurspegli útlánaáhættu.