Nýi Landsbankinn hefur farið fram á að Árni Pétur Jónsson og Ólafur Þór Jóhannesson, forstjóri og fjármálastjóri Teymis, verði látnir víkja.

Bankinn, sem er langstærsti eigandi Teymis, hefur lagt fram tillögu þess efnis í stjórn Teymis í gegnum eignarhaldsfélag sitt Vestia sem fer með eignarhlutinn fyrir hönd Nýja Landsbankans.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins tengist krafa Nýja Landsbankans meðal annars því að Teymi tók yfir skuldir tveggja eignarhaldsfélaga í eigu stjórnendanna. Skuldir félaganna tveggja námu um 829 milljónum króna í febrúar síðastliðnum.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma einnig að þessi krafa hafi valdið töluverðum núningi milli Nýja Landsbankans og annarra eigenda Teymis, sem sumir hverjir styðja Árna Pétur og Ólaf Þór til að sitja áfram.

Eigendurnir sem vilja að stjórnendurnir sitji áfram eru ánægðir með hvernig þeir Árni Pétur og Ólafur Þór hafa staðið sig í því endurskipulagningarferli sem Teymi hefur gengið í gegnum síðan að bankahrunið átti sér stað.

Teymi tók yfir skuldir félaga í eigu Árna Péturs og Ólafs Þórs

Teymi tók yfir skuldir tveggja félaga, TT1 ehf. og TT2 ehf., sem eru í eigu Árna Péturs og Ólafs Þórs, þegar félagið var afskráð í október 2008. Skuldin, sem er við Íslandsbanka, stóð í 829 milljónum króna þann 28. febrúar síðastliðinn. Félögin tvö voru upphaflega stofnuð í ágúst 2007 þegar stjórnendurnir tveir fengu að kaupa 70 milljón hluti að nafnvirði í Teymi.

Kaupin voru fjármögnuð af Glitni, sem nú heitir Íslandsbanki. Árni Pétur og Ólafur Þór voru ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir lánunum heldur féll sú ábyrð á Teymi samkvæmt samningnum, en Teymi var á þeim tíma almenningshlutafélag. Stjórnendurnir gátu því ekki tapað krónu á viðskiptunum.

Gátu grætt en ekki tapað

Á hinn bóginn fylgdi hlutunum söluréttur sem átti að verða virkur í lok ágúst 2010. Ef gengi bréfa Teymis hefði hækkað þá hefðu félögin tvö getað selt hlutina, með tilheyrandi hagnaði fyrir eigendur sína. Teymi á og rekur meðal annars Vodafone á Íslandi, Tal, Skýrr, Kögun og EJS.

Félagið gekk i gegnum nauðasamningaferli fyrr á þessu ári og eftir það er Nýi Landsbankinn stærsti hluthafinn með 62,16 prósent eignarhlut. Eignarhaldsfélagið Vestia, dótturfélag Landsbankans, fer með eignarhlutinn í Teymi fyrir hönd bankans. Aðrir hluthafar eru Straumur, Íslandsbanki og ýmsir lífeyrissjóðir.