Landsbankinn hefur til sölu 21,1% hlut sinn í Eyri Invest. Bankinn átti í lok síðasta árs 13,7% hlut í Eyri Invest í gegnum Horn fjárfestingarfélag og 9,6% í eigin nafni. Hluturinn hefur verið til sölu um nokkurt skeið en hann hefur ekki verið auglýstur með formlegum hætti eins og t.a.m. eignarhlutur bankans í Ístaki. Þess í stað geta þeir sem hafa áhuga á honum haft samband við Markaðsviðskipti Landsbankans, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Ekki liggur fyrir hvaða verðmiða Landsbankinn setur á hlut sinn í Eyri Invest.

Greint er frá því að eignarhluturinn er til sölu í tilkynningu Landsbankans um eignahald hans á fyrirtækjum í óskyldum rekstri .

Eyrir Invest á 29,28% hlut í Marel, 17% hlut í hollensku iðnfyrirtækjunum Stork Technical Services og Fokker Technologies, auk 100% hlutar í Eyrir Sprotar. Í því félagi eru m.a. hlutir í fyrirtækjunum ReMake Electric og Saga Medica.  Hlutur Eyris í Marel myndar um 50% af eignasafni Eyris.

Stærstu hluthafar Eyris Invest eru feðgarnir Árni Oddur Þórðarson, nú forstjóri Marel, og Þórður Magnússon. Þórður á 20,2% og Árni Oddur 17,3%. Þá á Lífeyrissjóður verslunarmanna 10% hlut í Eyri Invest.