Landsbankinn var útnefndur besti bankinn á Íslandi af Global Finance Magazine í sérriti þeirra “Best Developed Market Banks awards for 2008”.

Í tilkynningu vegna þessa segir að valdir voru þeir bankar í hverju landi, sem “sinntu þörfum viðskiptavina sinna hvað best og náðu markverðum árangri um leið og þeir lögðu grunn að velgengni til framtíðar.” Það voru ritstjórar Global Finance sem sáu um valið, í samráði við bankamenn, fjármálastjóra fyrirtækja og greiningaraðila um allan heim.

“Við veitum þessum bönkum viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur”, sagði útgefandi Global Finance, Joseph D. Giarraputo. “Alþjóðlegir fjármálamarkaðir eru erfiðir og aðstæður á hverjum markaði geta verið misjafnar en sigurvegurum var sérstaklega hrósað fyrir metnaðarfulla þjónustu við þarfir viðskiptavina sinna”.

Nánari upplýsingar um viðurkenningu Landsbankans verða birtar í aprílhefti Global Finance.

Bankastjórar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, höfðu þetta að segja um viðurkenningu Global Finance, “Við erum mjög ánægðir með að góður árangur Landsbankans sé viðurkenndur af tímaritinu.  Sérstaklega þykir okkur ánægjulegt að metnaðarfull þjónusta okkar við viðskiptavini, sem er hornsteinn starfsemi okkar, sé viðurkennd til viðbótar við sterka eiginfjárstöðu og árangursríkan vöxt.”