Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður SpKef, sem reistur var á rústum Sparisjóðs Keflavíkur, ekki endurreistur eins og ríkisstjórnin hefur stefnt að. Þess í stað verður innlánum í sparisjóðnum rennt inn í Landsbanka Íslands. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins munu einhver útibú SpKef halda starfsemi áfram en þá undir merkjum Landsbankans. Ekki fengust upplýsingar um hve mörg útibú er að ræða.

Þetta mun væntanlega vera ódýrari kostur fyrir ríkið sem áformaði að setja að minnsta kosti 14 milljarða króna í endurreisn sparisjóðsins. Þar sem innstæður eru tryggðar munu ríkið þurfa að láta einhverja peninga eða ábyrgðir á móti innlánum, sem færast í Landsbankann. Ekki er vitað hvað það mun kosta ríkið.

Vefsíðan Eyjan sagði fyrst í morgun frá þessari breyttu stefnu ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að Steingrímur J. Sigfússon hefði talað fyrir því að sparisjóðirnir yrðu endurreistir og endurfjármögnun SpKef væri mikilvægur hlekkur í því starfi. Hins vegar hefðu þessi áform mætt andstöðu í Samfylkingunni, einkum hjá Árna Páli Árnasyni efnahags- og viðskiptaráðherra.