Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 702 milljónum króna á árinu 2016, samanborið við 616 milljóna króna hagnað fyrir rekstrarárið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbréfa fyrir árið 2016.

Hreinar rekstrartekjur félagsins námu 1.730 milljónum króna árið 2016 samanborið við 1.569 milljónir króna rekstrarárið 2015. Eigið fé Landsbréfa í lok árs 2016 nam 3.150 milljónum króna samanborið við 2.448 milljónir króna í lok 2015.

Eiginfjárhlutfall sem reiknar er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 112,58% samanborið við 85,38 árið áður, en hlutfall þetta má lægst vera 8%. Eignir í stýringu í árslok voru um 184 milljarðar króna í árslok samanborið við um 129 milljarða króna árið áður.

Vel gekk á árinu

„Rekstur Landsbréfa gekk mjög vel á árinu 2016. Umsýsluþóknanir félagsins jukust um 32% á milli ára og skilaði félagið góðum hagnaði eða 702 milljónum króna, sem svarar til rúmlega 28,7% arðsemi eigin fjár. Innlendur verðbréfamarkaður, einkum hlutabréfamarkaður, skilaði lakari ávöxtun en árið á undan, en þrátt fyrir það voru verðbréfa- og fjárfestingasjóðir Landsbréfa almennt að vaxa á árinu.  Á árinu voru stofnaðir fjórir nýjir sjóðir. Af nýjum afurðum á árinu má nefna annars vegar fagfjárfestasjóðinn Landsbréf - Veðskuldabréfasjóð slhf., sem fjárfestir í fasteignatryggðum skuldaskjölum, og hins vegar fjárfestingarsjóðinn Landsbréf – Global Portfolio sem fjárfestir á erlendum verðbréfamörkuðum,“ segir í tilkynningu Landsbréfa til Kauphallarinnar.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa segir við tilefnið: „Rekstur Landsbréfa gekk vel á árinu og hefur félagið fest sig í sessi sem eitt öflugasta sjóðstýringarfyrirtæki landsins. Á árinu varð verulegur vöxtur á eignum í stýringu Landsbréfa og almennt gekk rekstur sjóða vel.  Félagið leggur metnað í að hlusta eftir þörfum fjárfesta og endurspeglast það í fjölbreyttu sjóðaframboði félagsins, þar sem er að finna fjárfestingakosti sem mæta þörfum flestra fjárfesta.“