Landsbréf hf., fyrir hönd sjóða í rekstri félagsins, hafa keypt 4,5 milljónir hluta í fyrirtækinu N1, en þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Gengi hlutabréfa í N1 hefur hækkað um 1,4% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Sé miðað við núverandi gengi, sem nemur 43,5 krónum á hlut, nema kaup Landsbréfa tæpum 196 milljónum króna og eiga sjóðir félagsins nú 5,07% í fyrirtækinu.

N1 birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Þar kom fram að hagnaður félagsins hefði verið öllu betri á tímabilinu en ári fyrr, en nú nam hann 636 milljónum króna samanborið við 487 milljónir króna í fyrra. Samanlagður hagnaður N1 á fyrri helmingi þessa árs nemur tæpum 770 milljónum króna, borið saman við rúmar 409 milljónir króna á síðasta ári.

Tekið skal fram að Landsbréf eiga ekki eignarhlut í N1 með beinum hætti, en fara þó með ráðstöfunarrétt þeirra atkvæða sem sjóðir í rekstri þess búa yfir.