Hagnaður Landsbréfa hf. nam í fyrra 187,2 milljónum króna samanborið við 6,9 milljóna króna hagnað árið 2012. Árið 2013 var fyrsta heila rekstrarár félagsins eftir að Landsbréf hf. keyptu rekstur allra sjóða Landsvaka hf. í mars 2012 og tóku yfir rekstur og stýringu eigna Horns fjárfestingarfélags hf. í september sama ár.

Í lok árs 2013 annaðist félagið rekstur 34 sjóða og félaga um sameiginlega fjárfestingu. Eignir í stýringu voru um 110 milljarðar króna í lok árs samanborið við 83 milljarða króna í upphafi þess. Eignir í stýringu hafa því aukist um 27 milljarða króna eða um 33% á árinu. Alls voru um 12 þúsund viðskiptavinir með eignir í stýringu hjá félaginu. Stjórn félagsins leggur ekki til að greiddur verði arður að þessu sinni og að hagnaði ársins 2013 verði ráðstafað til hækkunar á eigin fé félagsins.