Leita þarf aftur til ársins 2006 til að finna ár þar sem færri einstaklingar fluttu af landi brott. Á árinu 2012 fluttu 6.276 frá Íslandi en 5.957 til landsins. Á síðasta ársfjórðungi 2012 voru 620 fleiri sem fluttu til landsins en frá því. Íslendingum sem flytja af landi brott hefur fækkað nokkuð á ári hverju frá 2009 og voru á síðasta ári um 4.066 talsins. Flestir fóru árið 2009, eða 4.851. Mikill fjöldi erlendra ríkisborgara fór af landinu á þeim tíma, eða 5.761, en brottflutningur þeirra hefur dregist mun hraðar saman en Íslendinga. Á síðasta ári fluttu 2.210 erlendir ríkisborgarar frá landinu.

Í gögnum Hagstofunnar má einnig finna skiptingu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að búferlaflutningum til og frá landinu. Þegar tölur yfir landsbyggðina eru skoðaðar sést að brottfluttir eru enn fleiri en aðfluttir frá landsbyggðinni. Skýrist það einkum af því að Íslendingar flytja af landsbyggðinni, en síðustu tvo ársfjórðunga hafa erlendir ríkisborgarar frekar flutt til landsbyggðarinnar en frá henni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.