*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 6. nóvember 2017 15:25

Landsbyggðin greiðir 79% veiðigjalda

Veiðigjöld leggjast misþungt á byggðir landsins en í Bolungarvík eru áætluð veiðigjöld 350 þúsund á íbúa.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Aðeins 21% af veiðigjöldum kemur frá höfuðborgarsvæðinu en restin, 79%, kemur frá sjávarútsvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni. Það samsvarar því að tæplega fjórir fimmtu veiðigjaldsins leggist á landsbyggðina að því er kemur fram í umfjöllun á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Í umfjöllun SFS segir að ekki verði dregin önnur ályktun en sú, að hækkað veiðigjald muni hafa meiri og afdrífaríkari áhrif á landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið.

Þá segir jafnframt að skattar og gjöld leggist misjafnlega á sveitarfélög. Sum sveitarfélög, líkt og Selfoss, muni ekki sérlega mikið um hvort veiðigjald sé hækkað eða lækkað en annað sé uppi á teningnum þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru burðarás í samfélaginu. 

Bolungarvík er eitt slíkt dæmi en í nýlegri úttekt sem gerð var fyrir sveitarfélagið kemur fram að veiðigjald sem leggst á fyrirtæki í sveitarfélaginu sé áætlað um 311 milljónir króna. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands búa 888 manns í Bolungarvík sem samsvarar því að sjávarútvegsfyrirtæki staðarins greiði 350 þúsund krónur í veiðigjöld á hvern íbúa. Í umfjöllun SFS er rætt við Jón Pál Hreinsson bæjarstjóra í Bolungarvík sem segir að hækkun veiðigjalda yrði samfélaginu þungbær. 

„Ég er mjög hugsi yfir því hvaðan þeir pen­ing­ar eiga að koma. Ekki verða þeir tekn­ir af fram­legð fyr­ir­tækj­anna eins og hún er í dag. Ég get ekki séð annað en hún verði þá tek­in með því að draga sam­an í kostnaði, fækka störf­um, minnka þjón­ustu, hætta allri þróun og hætta að sækja fram. Ég sé ekki annað en að þetta sam­fé­lag sem ég stýri sé að fara að borga fyr­ir þetta dýr­um dóm­um,“ segir Jón Páll.