Landsbyggðin kom víðar við í vikunni sem leið en bara í starfsmannamálum. Samtökin Landsbyggðin lifi sendu inn umsögn vegna þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2013-2016. Efnislegt innihald umsagnarinnar vakti minni athygli hjá Hugin og Munin en það hvar samtökin eru staðsett á landinu.

Landsbyggðarsamtökin eru nefnilega til húsa í íbúðarhúsnæði í Grafarvogi. Hægt er að túlka þá staðreynd á tvo vegu. Annars vegar má velta því fyrir sér hvort trúverðugleiki samtakanna væri ekki meiri væru þau staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, eða að minnsta kosti utan Reykjavíkur. Hins vegar gætu illkvittnir einstaklingar, búsettir í miðbænum, litið á þetta sem staðfestingu á því að Grafarvogur (ásamt Breiðholti og Árbæ) sé í raun hluti af landsbyggðinni og beri að afgreiða hverfin sem slík.

Moli Hugins & Munins birtist í Viðskiptablaðinu 8. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .